Í þessum áfanga er farið í hlutverk söngs og tónlistar í leiksýningum. Nemendur læra að skilja og greina uppbyggingu söngleikja og grundvallarforsendur þeirra, stíla, hlutverkaskipan og raddtýpur. Einnig verður notkun tónlistar og sönglaga í leikhúsi almennt skoðuð og farið verður í texta og tónlistargreiningu. Kennd verða undirstöðuatriði í söng og áhersla lögð á túlkun og tjáningu söngtexta. Einnig verður fjallað um raddheilbrigði og almenna beitingu raddarinnar.